Valgreinadagar í Reykjaskóla

Sameiginlegir valgreinadagar Blönduskóla, Grunnskóla Húnaþings vestra og Húnavallaskóla fyrir nemendur 8. – 10. bekkjar verða haldnir daga 27. og 28. september í Reykjaskóla.

Verkefnið er þróunarverkefni sem skólarnir hafa fengið styrk úr Sprotasjóði til að vinna að. 
Markmið verkefnisins er að auka fjölbreytni valgreina og styrkja tengsl nemenda í áhugatengdu starfi.

Meðal þess sem boðið verður uppá um helgina er framreiðsla og þjónusta, vatnslitamálun, nýsköpunar og legósmiðja, spilasmiðja, Dungeons and dragons svo eitthvað sé nefnt.

Á föstudagskvöldinu verður hinseginfræðsla með þátttöku nemenda. Guðmundur Kári  Þorgrímsson, 20 ára, mun sjá um fræðsluna en ásamt fræðilegum staðreyndum deilir hann reynslu sinni sem samkynhneigðum strák sem ólst upp í litlu bæjarfélagi úti á landi.  Aðeins verður rætt um fordóma og upplifun fólks á að ,,koma út úr skápnum". Í stóra samhenginu erum við öll eins, lang flest í leit að hinu sama; nánd með annarri manneskju, sama hver hún er.

Seinni sameiginlegu valgreinadagarnir verða á Blönduósi 13. og 14. mars.