Um skólann

Blönduskóli er skóli mannúðar, hreysti og visku.

Þrátt fyrir að yfirvöld menntamála hafi sett fram ítarlega aðalnámskrá fyrir grunnskóla eru skólar landsins ólíkir á margan hátt. Hver skóli hefur sína sérstöðu og sína eigin skólastefnu. Á undanförnum árum höfum við unnið að því að móta stefnu og framtíðarsýn fyrir skólann okkar. Framtíðarsýn skólans rúmast í einni setningu: Blönduskóli er skóli mannúðar, hreysti og visku. Framtíðarsýn skólans varð þó ekki til á einum degi heldur er hún í raun afrakstur tveggja ára vinnu. Hún varð til samfara sjálfsmati skólans og komu allir starfsmenn að henni. Kjörorðin eru ætluð að vera okkur sem störfum í skólanum leiðarljós á hverjum degi þegar við mætum til vinnu. Þau eiga að brýna fyrir okkur mikilvægi starfs okkar. Hugtökin mannúð, hreysti og viska beina sjónum okkar að þremur lykilþáttum sem í raun gera okkur að manneskjum.

Mannúð vísar til hins siðferðilega. Mannúðin er eitt hið mikilvægasta í starfi okkar, virðing fyrir nemendum okkar og samstarfsfólki. Við kennum nemendum okkar að bera virðingu fyrir öðrum. Hver manneskja er óendanlega verðmæt og önnur verðmæti eru aðeins til vegna hennar. Þess vegna er lögð áhersla á umburðarlyndi gagnvart ólíkum einstaklingum og að borin sé virðing fyrir skoðunum annarra.

Hreysti vísar til bæði andlegs og líkamlegs heilbrigðis. Við leggjum meira upp úr því að efla sterkar hliðar hvers og eins en að einblína á veiku hliðarnar. Gildi hollrar næringar eru höfð í hávegum og áhersla er lögð á að styrkja nemendur í að bera ábyrgð á eigin lífi og heilsu með því að taka afstöðu gegn óheilbrigðum lífsvenjum.


Viska vísar til hins vitsmunalega. Maðurinn leitar þekkingar á heiminum og reynir að skilja hann. Við leggjum áherslu á að nemendur tileinki sér vönduð, skipuleg og sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur læri gildi þess að gera ávallt sitt besta í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur. Markmiðið er að nemendur verði færir um að afla sér þekkingar og öðlist færni í því að beita henni.


skólinn