Kennarar í Blönduskóla (og öllum grunnskólum í A- og V-Húnavatnssýslum) hafa undanfarin skólaár tekið þátt í þróunarverkefni undir handleiðslu Ingvars Sigurgeirssonar prófessors við Kennaradeild HÍ. Heimasíða þróunarverkefnisins er hér: Í átt að settu marki – leiðsagnarmat og teymiskennsla.
Í vor var tekin sú ákvörðun að skólaárið 2019-2020 myndu umsjónakennarar í Blönduskóla starfa í tveggja manna teymum með tvo árganga. Þetta krefst skipulagsbreytinga og einnig hugarfarsbreytinga hjá skólasamfélaginu öllu; Starfsfólki skólans, nemendum og forráðamönnum. Eins og með allar nýjungar mun þetta eflaust reyna á og verður lærdómsferli fyrir alla en þar sem teymiskennsla hefur verið reynd er yfirgnæfandi meirihluti sammála því að þeir myndu ekki vilja fara aftur í fyrra horf. Hægt er að lesa um það t.d. í þessari meistararitgerð: Teymiskennsla -böl eða blessun?
Við fengum lánaða nokkra punkta um teymiskennslu af heimasíðu Naustaskóla á Akureyri en hann hefur verið teymiskennsluskóli með aldursblandaða árganga frá stofnun skólans árið 2009. http://www.naustaskoli.is/is/skolinn/stefna-skolans/teymiskennsla
Teymiskennsla
Af hverju veljum við teymiskennslu?
Kostir fyrir nemendur ef vel tekst til:
- Meiri sveigjanleiki og fjölbreytni í verkefnum
- Hægt að hafa smærri hópa og mæta ólíkum þörfum nemenda
- Fleiri kennarar á svæðinu til að aðstoða nemendur
- Aðstæðum sem koma upp á er hægt að sinna strax, nemendur síður skildir eftir einir.
- Félags- tilfinninga- og námsþarfir nemandans eru ræddar af kennurum sem allir þekkja nemandann
- Nemendur tengjast fleiri kennurum, hafa fleiri til að leita til með ráðleggingar og aðstoð
- Nemendur geta fylgst með góðum samskiptum milli kennaranna og upplifa jákvæða fyrirmynd í samskiptum fullorðinna.
- Öryggið er fyrir hendi þótt einn kennara vanti
- Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni
- Námsmat sanngjarnara þar sem fleiri koma að því - betur sjá augu en auga
- Fjölbreyttari félagahópur og getur leitt til meiri samheldni innan nemendahópsins
Kostir fyrir kennara:
- Meira samstarf, skemmtilegra í vinnunni, minni einangrun
- Samvinna og stuðningur, ekki síst við erfið samskipti og agamál
- Kennarar fá mikinn stuðning hvor frá örðum við markmiðsgerð og val aðferða og leiða
- Kennarar geta nýtt mismunandi hæfileika sína eftir því sem við á
- Meiri líkur á fjölbreyttari vinnubrögðum og aðferðum
- Vinnuhagræðing / verkaskipting / álagið dreifist
- Hægt er að bregðast strax við aðstæðum sem koma upp
- Fjölbreyttari sýn á nemendur
- Námsmat samræmdara
- Kennarar læra af hvor öðrum
- Unnið eftir námsáætlun eins og hægt er þó einn kennara vanti
- Betra að fylgjast með samskiptum í skólastofunni
