Tökum saman höndum!

Tökum saman höndum!

Verkefnið var skipulagt af fræðslustjóra Austur Húnavetninga, Guðjóni E. Ólafssyni og starfsmönnum Blönduskóla.
Verkefnið hófst haustið 2006

Markmið/tilgangur?
Að bæta líðan og námsárangur nemenda í unglingadeild Blönduskóla. Öllum börnum á að líða vel í skólanum og hæfileikar allra eiga að njóta sín til fulls. Þetta er megin hlutverk alls skólastarfs. Til að ná þessu markmiði getur þurft að nota misjafnar aðferðir og stundum óhefðbundnar leiðir. Verkefnið hefur reynst vel og er því orðið eitt af þeim úrræðum sem skólinn býður öllum nemendum á unglingastigi.

Aðkoma foreldra að verkefninu:
Foreldrar eru hluti af teymi sem hittist á 4 - 6 vikna fresti. Allir í teyminu hafa jafn mikið vægi í teymisvinnunni.

Samstarf foreldra og kennara/starfsmanna:
Ein megin forsenda árangurs þessa vinnulags er að allir séu jafngildir meðlimir teymisins. Foreldrar ekki síður en aðrir. Allir eiga að upplifa að þeir séu í sama liði og þá myndast samkennd.

Verkefnið hefur stuðlað að jákvæðum hefðum í samstarfi heimila og skóla:
Það hefur fjölgað þeim foreldrum og nemendum sem nýtt hafa sér þennan samstarfsmáta sem hefur orðið til þess að auka jákvæð samskipti heimila og skóla.

Verkefnið nær oft að brúa bilið milli foreldra og nemenda:
Það næst oft sátt með þessari vinnu milli foreldra og nemenda þar sem þeir fá stuðning til að skilja betur stöðu sína og vilja.

Verklýsing:
1. Nemandi er í vanda félagslega, tilfinningalega, námslega eða annað.

2. Skólinn býður nemandanum og foreldrum hans að taka þátt í verkefninu Tökum saman höndum.

3. Umsjónarkennari, sérkennari eða skólastjórnandi ræða við nemandann og útskýra verkefnið. Nemandann skrifar niður allt sem hann telur að betur mætti fara honum til hagsbóta. Allar hugmyndir eru teknar til greina. Dæmi (raunveruleg): fá að sofa til kl. 10, fá að læra í næði, fá að vera í tölvunni í 5 klst., fá að fara á Stuðla, fá aðstoð við heimanámið í skólanum, foreldrar hætti að tuða um heimanámið, fá smokkasjálfsala á ganga skólans, mega fara í náttfötunum í skólann, námsefni of erfitt o.s.frv.

4. Boðaðir á fund hjá fræðslustjóra eru: nemandinn, foreldrar, fræðslustjóri, umsjónarkennari, skólastjórnandi og fleiri ef þurfa þykir (t.d. sérkennari, félagsmálastjóri). Þessi hópur skipar síðan teymið sem hittist reglulega.

5. Á fyrsta fundi eru hugmyndir nemandans, starfsfólks skóla og heimilis um hvað þarf að breytast eða megi betur fara settar fram og skoðaðar (með skjávarpa á vegg). Allar hugmyndir eru ræddar og þær rökstuddar. Áhersla er lögð á að samræma hugmyndir og kröfur og að væntingar séu raunhæfar. Allir bera jafna ábyrgð á að markmiðum sé náð.

6. Áður en fundi er slitið er boðaður nýr fundur.

7. Á næsta fundi er punktum aftur varpað upp á vegg og farið yfir hvern lið fyrir sig. Þá kemur í ljós hvort allir hafi verið að standa sig. Var skólastjórnandinn búinn að útvega næðisstað, var mamma/pabbi hætt/ur að tuða um heimanámið, var samkomulag um tölvuviðveru virt, var búið að aðlaga námsefni???? Hver og einn verður að gera grein fyrir sínu.

Verkefnið getur staðið yfir í nokkur ár eða skemur.

Greinargerð um verkefnið Tökum saman höndum! í Blönduskóla.
Í Blönduskóla hefur verið unnið skipulega í samvinnu við fræðsluskrifstofu og heimilin að því að finna lausnir sem koma nemandanum til góða.

Stundum erum við ekki að ná árangri. Sömu atriðin eru að valda okkur vanda og lítið breytist. Nemandanum líður illa, hann festist í hegðun sem hann er búinn að tileinka sér og kemst ekki upp úr farinu. Margt hefur verið reynt en lítið hefur breyst.

Hvað er þá til ráða? Blönduskóli telur sig hafa fundið leið sem byggir á Skilningi, skipulagi, virðingu, festu og ábyrgð og er að skila árangri.

Umsagnir:
Móðir: "Hæst ánægð, góður stuðningur fyrir bæði barn og foreldra. Foreldrar sýna áhuga með því að vera með. Mikilvægt að nemandinn er með, ekkert pukur. Flott að hann komi með tillögur. Nemandinn plumar sig vel eftir að grunnskólagöngu lauk."

Móðir: "Þetta verkefni skipti öllu máli í framvindu mála. Teymið bakkaði móður upp og lét nemandann finna að hann skipti máli. Fullt af fólki sem sagði að hann skipti máli. Ein móðir hefur stundum lítið vægi. Verkefnið skilaði uppflettanlegum árangri í tölum í Mentor. Hægt að skoða fyrir og eftir. Samskipti móður og barns jákvæðari á eftir."

Starfsmenn skóla: "Allir í teyminu hafa jafnt vægi, frábært að sjá nemandann fyrir og eftir. Kemur oft niðurlútur á fyrsta fund og horfir ekki framan í nokkurn mann. Það er svo ánægjulegt að fylgjast með hvernig nemandinn verður smám saman upplitsdjarfari þegar líður á verkefnið. Upplifun svipuð og Skytturnar þrjár (eða fjórar eða fimm) þar sem allir eru í sama liði (Einn fyrir alla - allir fyrir einn)."

Nemandi: "Hjálpar manni. Maður stendur sig betur og fær annað viðhorf til skólans. Mæli með þessu. Maður sér að fullt af fólki hefur væntingar til manns."

Fræðslustjóri: „Ég er sannfærður um að þessi vinnubrögð hafa skipt sköpun í lífi þeirra nemanda sem fengið hafa þessa leiðsögn. Ástæðan er fyrst og fremst sú hversu mikil áhersla er lögð á jafnræði allra þátttakenda. Allir fá að segja sitt og allar hugmyndir eru teknar til greina og skoðaðar. Það tekur oft tíma fyrir þátttakendur að uppgötva að þeir hafa jafnan rétt til að segja sína skoðun. En þegar því markmiði er náð getur árangur orðið ótrúlegur á stuttum tíma.“