Göngum í skólann

Blönduskóli tók þátt í alþjóðlega verkefninu göngum í skólann dagana 2. - 15.sept. Verkefnið gekk út á að koma gangandi eða hjólandi til og frá skóla. Í heildina komu nemendur í 74% tilfella gangandi eða hjólandi í skólann. 

1. - 2. bekkur kom í 70% tilfella gangandi/hjólandi í skólann

3. - 4. bekkur í 66% tilfella

5. - 6. bekkur í 74% tilfella

7. - 8. bekkur í 79% tilfella og

9. - 10. bekkur í 78% tilfella.

Kennarar voru einnig duglegir að leggja fyrir ýmis verkefni tengt þessu.

Fjölskylduganga

Þriðjudaginn 15. september var farið í fjölskyldugöngu í tilefni að verkefninu Göngum í skólann. Genginn var rúmlega 3 km hringur í góðu veðri. Farið var frá íþróttamiðstöðinni, í gegnum Fagrahvamm, niður í Glaðheima og þaðan út í Hrútey. Um 30 einstaklingar á öllum aldri mættu galvaskir í þessa skemmtilegu göngu. 

Íþróttadagur Blönduskóla

Íþróttadagur Blönduskóla var haldinn fimmtudaginn 17.september. Byrjað var á Ólympíuhlaupi ÍSÍ en þá gátu nemendur valið um að ganga/skokka/hlaupa 2.5km eða 5km. Að hlaupi loknu var farið inn í íþróttahús þar sem nemendur tóku þátt í ýmsum þrautum og keppnum, eftir það var keppni milli árganga og endað á æsispennandi blakleik milli 10.bekkjar og kennara sem endaði með sigri kennara.