Krókusar til gleði

Þriðjudaginn 8. september settu nemendur Blönduskóla niður 600 krókusa í kirkjuhólinn. Starfsfólk skólans var þeim til aðstoðar ásamt Snjólaugu starfsmanni áhaldahúss og Björk Bjarnadóttur fyrrverandi nemanda Blönduskóla. Björk sem er umhverfis-þjóðfræðingur hafði yfirumsjón með verkefninu en hugmyndina fékk hún í vor þegar hún dvaldi hjá foreldrum sínum og gekk mikið um bæinn með son sinn í barnavagni. Þá blasti kirkjuhólinn við gulur og líflaus og Björk sá að þarna væri svæði sem gaman væri að fegra með krókusum. Hún setti sig í samband við skólastjóra Blönduskóla og hann ásamt öðru starfsfólki skólans tók vel í hugmyndina um að fegra kirkjuhólinn. Björk fékk upplýsingar frá starfsfólki Grasagarðsins í Reykjavík og var það henni innan handar um pöntun á laukum og hvernig ætti að bera sig að við gróðursetningu. Verkefnið var unnið eins og áður segir með öllum nemendum Blönduskóla. Settir voru niður haustlaukar sem kallast krókusar í kirkjuhólinn. Litir og fegurð krókusunna munu síðan gleðja þá sem bíða eftir vorinu. Þar sem þeir eru fjölærir og fjölga sér þá verður hægt að sjá þessa lauka á hverju vori í marga áratugi. Þeir eru fjólubláir, hvítir og gulir. Oftast byrja þeir að blómstra um miðjan mars og standa fram í apríl. Markmið verkefnisins er að gleðja augað og fræða fólk á Blönduósi sem og annars staðar um hve gaman og auðvelt sé að fegra umhverfi sitt ef við hjálpumst að. Að skilja eitthvað eftir sig sem blómstrar á hverju vori er fagurt og göfugt verkefni, sem mun vonandi vekja áhuga fólks á Blönduósi sem og annars staðar að fegra umhverfi sitt með hinum ýmsu laukum, blómum, grænmetis-eða trjáræktun.