Lokakynning Erasmusverkefnis Brains 4 Europe

Blönduskóli fékk styrk til þess að taka þátt í Erasmus+ verkefni sem heitir Brains for Europe. Með Erasmus+ gefst menntastofnunum og aðilum sem sinna menntun á öllum skólastigum tækifæri til að auka alþjóðavæðingu í skólastarfi, miðla eigin reynslu og sækja þekkingu til annarra Evrópulanda. Markmið verkefnisins Brains for Europe var að kynna nám í taugavísindum í grunnskólum með því að kenna börnum á aldrinum 12-16 ára hvernig heilinn virkar og hvernig þau geta nýtt sér þessa visku til þess að bæta sig í námi. Sonja Suska (stjórnandi verkefnis) kenndi Brains 4 Europe sem valfag á unglingastigi en Lilja Jóhanna Árnadóttir og Þuríður Þorláksdóttir komu einnig að verkefninu auk þess sem Sonja fékk þekkta fræðimenn til liðs við sig.

Samstarfsaðilar Blönduskóla eru grunnskólar frá Póllandi, Spáni, Rúmeníu og Tyrklandi en stjórnandi verkefnisins er taugavísindadeild Valladolid University á Spáni. Auk þess taka tvö fyrirtæki frá Spáni, Mares Virtuales og Premium Research, þátt í verkefninu.

Þessu verkefni er nú að ljúka og 31. maí kl.15 fer fram rafræn lokakynning verkefnisins þar sem þátttakendur og sérstaklega nemendur kynna hvað þau hafa gert og lært í gegnum verkefnið. Það er mjög mikilvægt fyrir framvindu verkefnisins og til að fá lokastyrkinn að góð þátttaka náist og ætlum við að hvetja ykkur að skrá ykkur á viðburðinn á eftirfarandi tengli: 

https://www.icscyl.com/ics/inscripciones/brains2.php

Við hvetjum alla velunnara skólans: foreldra, afa og ömmur, frænkur og frændur, starfsfólk skólans og aðra, til að skrá sig og fræðast um verkefnið og sjá kynningar frá okkar flottu nemendum sem tóku þátt í verkefninu.