Takk fyrir veturinn! -Sumarkveðja frá Blönduskóla

Þann 29. maí var skólaárinu 2019-2020 slitið í Blönduskóla. Skólaslitin voru þó með óvenjulegum hætti þetta skólaárið vegna Covid-19.

Eins og hefur komið fram svo oft áður var þessi vetur óvenjulegasti vetur sem flestir muna eftir. Óveður setti strik í reikninginn því skólanum var lokað í 4 daga en það hefur ekki gerst í áratugi. Einnig var flensan óvenju slæm í upphafi árs, sérstaklega hjá nemendum. Svo kom samkomubann vegna Covid-19 sem sett skólastarf á landsvísu allt úr skorðum. Við erum samt sammála um það hér í Blönduskóla að okkur hafi gengið mjög vel að vinna úr þeim breytingum sem þetta allt hafði í för með sér. 

Vegna hvassviðris á skólaslitadaginn var árleg útihátíð skólans færð inn í íþróttahúsið. Nemendur og starfsfólk höfðu æft að standa saman þannig að við myndum ná að mynda bókstafina BLÖNDUSKÓLI og var áætlað að taka mynd úr lofti með dróna. En vegna veðurs reyndum við að gera þetta inni. Það gekk ekki alveg eins og við höfðum séð fyrir okkur en þarna erum við samt öll saman á mynd. Við reynum bara aftur næst! 

Starfsfólk Blönduskóla sendir nemendum og forráðamönnum barna í Blönduskóla, sem og öðrum Blönduósingum sumarkveðjur og þakkar fyrir þennan óvenjulega en góða vetur.