Ástundunarreglur fyrir 8. - 10. bekk 
Hver nemandi byrjar með 10,0 í einkunn í upphafi hvorrar annar. Fjarvistir, brottrekstur úr tímum, of seint og slæm/vítaverð framkoma utan eða innan kennslustofu koma síðan til frádráttar. Þau stig sem eftir eru í lok annar teljast ástundunareinkunn og færast í spjaldskrá og á einkunnablöð.
Hvert R, s, fj, og g hefur sín stig sem koma til frádráttar á eftirfarandi hátt:
Fjarvistir (fj): Fyrir fyrsta fj kemur enginn frádráttur en eftir það dragast 0,5 frá fyrir hvert skipti.
Brottrekstur úr kennslustund (R): Fyrir R fært í bekkjarskrá kemur 1,0 til frádráttar.
Of seinn (s): Komi nemandi of seint í kennslustund skal færa s í bekkjarskrá. Komi nemandi 15 mínútum of seint eða meira skal færa fj í bekkjarskrá. Fyrir fyrsta s kemur enginn frádráttur en eftir það dragast 0,2 frá fyrir hvert skipti.
Verkfæralaus (g): Komi nemandi bókarlaus/verkfæralaus í kennslustund eða án þess að hafa unnið heimavinnu sína skal skrá g í bekkjarskrá. Fyrir það kemur 0,1 til frádráttar.
Vítaverð framkoma: Fyrir vítaverða framkomu að mati kennara eða annars starfsfólks skólans hvort sem það er innan eða utan kennslustofu komi sami frádráttur og fyrir R nema annað sé ákveðið af skólastjóra/aðstoðarskólastjóra. Þótt R sé fært í bekkjarskrá þýðir það ekki sjálfkrafa að nemanda sé vikið úr kennslustund heldur er litið á það sem mælikvarða á hegðun nemanda. Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri skulu ætíð fá slík mál til meðferðar og fella endanlegan úrskurð.
Hægt er að sjá stöðu nemenda í mentor og er það á ábyrgð umsjónakennara að fylgjast með ástundunareinkunn sinna nemenda.
Fari nemandi niður fyrir 8,0 í ástundunareinkunn skal umsjónarkennari tilkynna það forráðamanni nemandans, hann skal einnig tilkynna er einkunn fer í 7,0 o.s.frv.
Fari nemandi niður fyrir 5,0 í ástundunareinkunn hefur hann útilokað sig frá ferðalögum á vegum skólans. Það er á ábyrgð umsjónarkennara að tilkynna forráðamanni hafi nemandi verið útilokaður frá ferðalögum.